Kennsluakademía opinberu háskólanna hefur starfað í nær fimm ár og hefur á þeim tíma fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir faglega þróun háskólakennslu. Akademían byggir á fagmennsku, markvissri uppbyggingu og framtíðarsýn sem miðar að sjálfbærri þróun. Hlutverk hennar er að efla samtal um kennslu á háskólastigi, styðja við umbætur á kennsluháttum og styrkja faglegt starf kennara.
Lögð er áhersla á að kennarar vinni markvisst að þróun eigin kennslu og dýpki skilning sinn á kennslufræði. Þeim er bent á að nýta viðmið fræðasamfélagsins um rannsóknir á kennslu og námi (SoTL) til að meta eigin kennsluhætti og móta þróunaráætlun. Kennarar geta sótt sér stuðning innan eigin stofnunar, nýtt sér námskeið sem háskólarnir bjóða eða tekið diplómanám í kennslufræði háskóla.
Til að efla faglegt samtal innan og milli háskóla hefur Kennsluakademían sett á laggirnar vinnuhópa og stýrihópa sem styðja við kennsluþróun en þannig má tryggja að akademían geti lagt sitt af mörkum til að auka samtal um kennslu og móta starfsemi hennar. Nokkrir stýrihópar eru virkir:
- Stýrihópur umsóknarferilsnámskeiðs aðstoðar verðandi umsækjendur við að móta umsóknir í takt við markmið akademíunnar. Lögð er áhersla á að nýta SoTL til að greina og ígrunda sína kennslu og hvernig stunda megi nemendamiðaða kennsluhætti.
- Fræðslu- og kynningarhópur heldur utan um upplýsingamiðlun, m.a. í gegnum vef og samfélagsmiðla.
- Stýrihópur kennsluþróunarráðstefna skipuleggur árlegar ráðstefnur þar sem kennsla og þróun hennar er í forgrunni. Þær skapa vettvang fyrir opinberu háskólanna til að deila reynslu, mynda umræður um kennslumál og efla innra starf. Lesa má um ráðstefnur akademíunnar hér.
- Stýrihópur Kennsludaga stendur að viðburðum sem leggja áherslu á mikilvægi háskólakennslu og þróun hennar. Um þá má lesa hér.
Kennsluakademían hefur þannig eflt stöðu sína sem mikilvægur þátttakandi í faglegri umræðu um kennslu í háskólum á Íslandi. Á næstu árum verður áhersla lögð á að styrkja innviði, efla þátttöku og tryggja sjálfbæra þróun starfseminnar. Með öflugu samstarfi og faglegum metnaði má byggja upp samfélag kennara sem styður hvert annað í því að auka gæði kennslu og náms á háskólastigi.